Ég er löt

Hvernig er hægt að vera svona latur? Ég er svo löt að það er skömm frá því að segja. Nenni hreinlega ekki neinu. Ef reyndar alltaf verið frekar löt og þurft að hafa mikið fyrir því að gera hlutina. Eitt hef ég reyndar stundum gert. Ég legg kannski mikla vinnu í eitthvað sem ég veit að ég á eftir að þurfa að gera oft seinna meir, til að næstu skipti verði mér auðveldari.

Eins og t.d. þá nota ég excel mikið í vinnunni. Bý mér til skjal sem reiknar út þá útkommu sem ég sækist eftir. Legg vinnu í að gera skjalið í upphafi og svo þegar að það er búið, þá þarf bara að setja í viðeigandi breytur í skjalið og útkomman er komin. Nenni ekki að hafa fyrir vinnunni. Geri mér hana eins auðvelda og hægt er, en án þess að það komi niður á afköstum og gæðum.

Geng alltaf frá hlutunum á sinn stað af því að ég nenni ekki að taka til. Nenni ekki að hafa allt í drasli og þurfta svo kannski að hlaupa til og taka til af því að það er einhver að slysast í heimsókn. 

Leiðist alveg svakalega að elda mat. Úff hvað það er leiðinlegt. Allur þessi tími sem fer í að undirbúa matinn. Þvo áhöldin sem ég notaði í matreiðslunni, á með að maturinn er að eldast. Svo er gúffað í sig á mettíma og síðan að ganga frá og vaska upp. Þetta tekur alveg fáránlega langan tíma. Væri alveg til í að gera eitthvað annað við þennan tíma sem fer í undirbúning og frágang. Eins og t.d. að gera ekki neitt! Það væri sko sældar letilíf.

Svo þarf ég að fara að hreyfa mig meira. En ég nenni því ekki! Enda sést það á mér. Leitihaugur dauðans hvað það varðar. Það er ekki eins og það sé erfitt fyrir mig að nálgast umhverfið. Frábærir göngustígar í nágrenninu. Stutt í Úlfarsfellið og öll hin fellin í Mosó. Neibb, nenni því ekki. Sit frekar í lazy boy og gera ekki neitt. Esjan blasir við mér úr eldhúsglugganum, en ekki nenni ég að kíkja á hana í nærmynd. Tvær flottar líkamsræktarstöðvar í nágrenninu, World Class í Spöng og Heilsuakademían í Egilshöll. Ó nei, ég nenni því ekki!!

Fór með hjólið mitt í stillingu síðasta haust. Var á leiðinni allt sumarið með það í stillingu, en það var ekki fyrr en í september sem ég druslaðist með það á verkstæðið hja Erninum og fékk þá til að yfirfara það. Frekar nýtt hjól sem ég á, en var leiðinlegt að hjóla á því. Ég fékk að heyra það hjá gaurnum sem afgreiddi mig þegar að ég sótti það á verkstæðið. Hann sagði mér það bara hreint út að það sem væri að hrjá þetta hjól væri notkunarleysi. Oh ætli ég viti það ekki alveg. Það þurfti nú ekki verkstæðiskarl til að segja mér það, en einhverra hluta vegna fannst honum hann þurfa að benda mér á það. Ég nennti ekki að hlusta á röflið í honum og skellti hjólinu inn í bíl og ók með það heim. Ekki séns að ég nennti að hjóla heim. Glætan!

Svo ætlaði ég að vera voða dugleg og æfa mig í að segja frá mis skemmtilegum atvikum mér tengdu hér á þessari síðu, en það er ekki að sjá að ég sé að standa mig. Líður langt á milli blogga.

Æ, ég nenni þessu ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband