Polar Beer

1.júní 1983 þá fór í ásamt fjórum öðrum í smá reisu til Bretlands og meginlands Evrópu. Við silgdum með skemmtilferðaskip sem hét MS Edda og sigldi þetta eina sumar, til Newcastle og þaðan til Bremerhaven og svo Reykjavík aftur.

Við sigldum sem sagt til Newcastle og fórum í land þar. Ókum um Bretland og nokkur lönd á meginlandi Evrópu og tóku síðan ferjuna aftur í Bremerhaven til Reykjavíkur. Bæði í senn frábært ferðalag og alveg glatað. Við vissum ekkert hvað við vildum gera og það var bara farið af stað.

Um borð í MS Eddu vorum við mjög svo hrifin af Pola Beer bjórnum. Á þessum árum var ekki byrjað að selja bjór í Ríkinu og á veitingahúsum á Íslandi. Það var ekki fyrr en 6 árum síðar. Þannig að við vorum voða spennt fyrir því að fá okkur bjór. Sérstaklega Polar Beer.

Þá komum við að skondnu atviki sem gerðist þegar að við vorum í London. Við vorum á labbi eitt kvöldið og duttum inn á smá torg þar sem voru nokkur sölutjöld. Þar á meðal einn sem seldi ávexti. Við ákváðum að ná okkur í kvöldsnakk í formi ferskra ávaxta. Þarna vorum við fimm að skoða úrvalið og það kjaftaði á okkur hver tuskan. Kaupmaðurinn stóð rólegur hjá og hlustaði á blaðið í okkur. Allt í einu spyr hann okkur hvaðan við séum og hvaða tungumál við tölum. Við segjum honum það fúslega og hann horfði á okkur með smá áhuga og sagði okkur að hann vissi ekki til þess að hann hefði hitt íslendinga fyrr. En eitt sagðist hann vita um, en það væri að við værum með Polar Beer. Þetta fannst okkur frábært. Íslenski bjórinn væri þekktur í London!! Vá, við veðruðumst öll upp og fórum að segja honum frá því að það skrítna við þetta allt saman var að hann væri bannaður á Íslandi. Hann kváði og spurði hvað við værum að meina. Jú, það eru lög á Íslandi, að hann væri bannaður á Íslandi. Þú mátt taka með þér ákveðinn skammt þegar að þú kemur til landins. Sjómenn væru að smygla þessu til landsins og selja á svörtu. Hann horfði á okkur hissa og allt að því reiður. Spurði svo hvort að við værum að fíflast í honum. Nei, nei, alveg satt! Bannað með lögum. Starfsfólk flugfélaganna væri oft öfunduð af því að þau mættu koma með inn í landið ákveðinn skammt. Sendiráðin mættu bjóða upp á þetta,en ekki almenningur.

Hann var ekkert tilbúin að trúa þessu bulli í okkur. Saman hvað við reyndum að sannfæra hann. Sagði okkur bara að gera at í sér og honum þætti þetta ekkert fyndið.

Við skildum ekkert í hvað hann tók þessu illa og gáfumst upp á að reyna að sannfæra hann. Hann vildi greinalega bara losna við okkur sem allra fyrst.

Nokkrum dögum síðar erum við á ferð um Frakkland. Allt í einu hrópar einn ferðafélagi mitt upp skellihlægjandi : "Hann var að tala um ísbirni!" Hann þurfti ekki að segja meira, við föttuðum öll hvað hann var að tala um. Vá hvað við hlógum að eigin heimsku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband