Alveg snar...

Það var árið 1982 og ég hafði eignast minn fysta bíl. Austin Mini, eiturgrænan. Hann var alveg ferlega skemmtilegur í akstri og ég var hæstánægð með drossíuna mína. Var í skóla á þessum tíma og það var alveg ótrúlegt hvað það var hægt að troða mörgum inn í bílinn þegar að það þurfti að skjótast eitthvað í hádeginu eða úr Ármúlanum niður í Baldurshaga undir stúkunni í Laugardalsvegllinu, í leikfimi.

Talandi um leikfimi. Ég ákvað að gera eitthvað í líkamsræktarmálum mínum og hringdi í líkamsræktarstöð sem hét Orkuveitan og keypti mér kort hjá þeim. Nú átti að fara að lyfta og allt. Ég hafði farið beint eftir vinnu og skoðað staðinn. Leist vel á og ákvað að drífa mig bara strax, skaust heim til að sækja æfingarfatnað, handklæði og allt dótið sem þessu fylgir.

Þegar ég er lögð af stað að heiman með töskuna í bílnum, þá ek ég Réttarholtsveginn í norður. Þegar að ég kem niður af Réttarholtshæðinni og nálgast Sogaveginn þá sé ég að það kemur bíll að gatnamótunum og stoppar. En hann átti einmitt að gera það, því að þarna var stöðvunarskylda hjá þeim sem óku Sogaveginn. En allt í einu ekur hann af stað og ég verð að hægja á mér til að lenda ekki á honum. En viti menn, ég slapp við hann, en fyrir aftann hann var ungur strákur á litlum sendibíl og elti hann blindandi yfir án þess að stoppa. Hann leit ekki einu sinni í áttina til mín og beint inn í hliðna á Mini-inum mínum og sópaði mér upp á umferðareyju hinu megin við gatnamótin.  Þar var akbrautarmerki sem ég ók niður og greinilega losaði gírkassann undirvagninum frá því að gírstöngin sem stóð nokkra tugi cm upp úr gólfinu skall fram og lá flöt undir mælaborðinu.

Viðbrögð mín komu mér svo gjörsamlega á óvart. Ég hentist út úr bílnum og æddi að strákunum sem horfði dauðhræddur á þessa brjáluðu stelpu sem fór að arga á hann. Hvurn andsk%@*#... varstu að gera maður!! Sástu ekki að það er stöðvunarskylda hjá þér. Sem þýðir að þú átt að nema staðar við línuna og fullvissa þig um að það er óhætt að aka yfir. Svafstu yfir þig þegar að þetta var kennt í umferðaskólanum??!!! Ertu ekki örugglega með bílpróf??!!! Svona hélt ég áfram og jós skömmunum gjörsamlega yfir strákinn og ég vissi ekki einu sinni að ég hafði þennan orðaforða sem kom upp úr mér.

Þar sem þetta var fyrir tíma GSM timann þá rauk ég inn í verslun sem var þarna á horninu. Ennþá alveg öskureið og gargaði á tvær ungar konur sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð "Má ég biðja ykkur um að hringja á lögregluna fyrir mig. Strákfíflið eyðilagði bílinn minn" og svo var ég rokinn út aftur með látum og hurðin skall á hælum mér.

Æði út á gatnamótin aftur og þar stendur strákurinn eins og lúpa og tautar aftur og aftur : "Fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu" Ég sagði honum á háau nótunum að ég væri búin að láta hringja á lögguna til að taka skýrslu og bætti svo við bara svo að það væri á hreinu að hann væri fífl og hálfviti og ég veit ekki hvað og hvað. 

Ég görsamlega umturnaðist þarna í einhverri geðshræringu. Ég þekki bara ekki sjálfan mig, en mér var andsk... sama. Strákfíflið eyðilagði fína bílinn minn sem ég var svo ánægð með. Ég var búin að eiga þennan bíl í 45 daga og hafði ætlað mér að eiga hann allavega eitt ár eða meira.

Þar sem ég stend þarna og eys skömmum yfir strákinn sem í sífellu tautaði "fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu... " þá kemur Svarta María aðsvífandi. Um leið og lögreglumaðurinn stekkur út úr bílnum og byrjar að ganga til okkar argar strákurinn : "ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA! ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA! ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA!"

Mér bregður svo rosalega og verð svo mikið um þetta, að ég finn hvernig allt dofnar í líkamanum mínum. Ég snögg róaðist þarna og dauðskammaðist mín fyrir lætin sem ég hafði verið með. Lögeglumaðurinn tók utan um axlirnar á stráknum og leiddi hann að bílum og sagði við skyldum nú alveg vera róleg hérna og gera skýrslu um þetta. Þetta var frekar skondin sena. Við sátum inn í bílnum og ég sagði ekki orð, en hann hélt áfram að tauta um það að þetta væri allt honum að kenna. Lögreglumaðurinn gat með því að spyrja okkur beint út í atriði fengið mynd á málið. En þarna sat ég hljóð og hann eins og geðsjúklingur með atvikið á heilanum. Herra Guð hvað ég skammaðist mín mikið. En við klárðum skýrsluna og eins við var að búast þá var ég í 100% rétti.

Svo þegar að við erum að stíga út úr bílnum, þá kemur mín elskulega systir að, á heim úr vinnu og stoppaði þegar að hún sá bílinn minn og mig koma úr lögreglubílnum. Henni dauðbrá og spurði hvort að það væri ekki allt í lagi með mig. Jú, jú, ég var bara að lenda í árekstri og bíllinn er óökufær. Hún baust til að skutla mér heim. Ég þurfti að fara í bílinn minn og tæma hann af persónulegum munum. Íþróttataskan þar á meðal. Svo kemur dráttarbíll og hann dregur bílinn minn í burtu. 

Ég sest upp í bíl systir minnar og tek þá eftir því að ég var með sár á hné og gat á buxunum. Hún spurði hvort að ég væri alveg örugglega í lagi og ekkert slösuð. Þá brotnaði mín alveg og tárin fóru að leka niður. Svo hrisstist ég og skalf eins og mér væri borgað fyrir það. Sagði henni hvað ég hefði verið vond við strákinn. Hún sagði mér hughreistandi að hann hefði bara vonandi lært af þessu og færi eftir umferðarreglunum framvegis. Það var fyrir bestu að enginn slasaðist.

En líklega þegar að fólk lendir í svona áfalli eins og þessi strákur. Að fá yfir sig svona brjálæðing eins og mig, þá bregst heilinn þannig við að hann hjálpar þér að gleyma slæmum minningum. Því að mörgum árum seinna þá sá ég mynd af þessum strák hjá vinkonu minni og ég benti á hann og sagði henni frá þessu atviki. Hún hló og sagðist ætla að bera þessa sögu undir hann næst þegar að hún hitti hann, því að hann var í bíladellusamfélagi með henni.

Jú, jú, stuttu seinna hitti ég vinkonu mína aftur og sagði að hún hefði hitt hann og nefnt þetta við hann. Hans viðbrögð voru :

"Já, var það vinkona þín sem var á bremsulausa bílunum" ?! W00t

 

p.s. eitt "græddi" ég á þessu. Systir ákvað a kaupa sér kort í stöðinni sem ég var að byrja í og við fórum saman í ræktina. Það var mjög gaman.

p.p.s Ég fékk far með henni, sko Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband