3.5.2011 | 23:38
Eurovision hvað?
Árið 2000 þá hætti ég að vinna hjá Garðheimum. Tvær sem ég einhverra hluta vegna kalla vinkonur mínar, ákváðu þegar að þetta var að gerast að þær skildu "gleðja" mig einu sinni í viku á uppsagnartímanum mínum. Þær voru að vinna með mér og var því auðvelt að fær mér þessa glaðninga. Þetta voru alls konar gjafir og fíflagangur sem þolir ekki að verði sett á internetið. En ég byrjaði síðan aftur í Garðheimum fjórum árum seinna. Enda þar á ég heima.
En, eitt af "gjöfunum" þeirra var að skrá mig sem dómara í söngvakeppni sjónvarpstöðvanna, betur þekkt sem Eurovision. Þær höfðu séð skjáauglýsingum hjá Rúv þar sem auglýst væri eftir fólki til að taka að sér þetta dómarahlutvert. En þær voru of seinar. Þegar að þær hringdu inn þá var búið að skipa í öll sæti og ekki fékk ég pláss. Þær voru nú ekkert sérstaklega sáttar við þetta og til að reyna að gera eitthvað fengu þær vin sinn til að hringja í mig og þykjast vera frá Rúv að bjóða mér sæti í dómnefnd. Ég lét ekki platast og strákurinn var frekar fúll að ég skildi ekki bíta á agnið. En hrekkjusvín þekkir hrekkjusvínatakta þegar að þeir birtast.
En viti menn, það losnaði allt í einu eitt sæti og konan hjá Sjónvarpinu ákveður að hringja í mig og spyrja hvort að ég hafi áhuga. En þær þessar elskur höfðu skilið eftir upplýsingar um mig ef það skildi losna sem það og gerði. Enn var ég var um mig, samt... hún var frekar sannfærandi. Svo ég sagðist vera aðeins upptekin með fólk hjá mér, hvort að ég mætti hringja í hana eftir örfáar mínútur. Jú ekkert mál og gaf mér upp símanúmerið hjá sér. Ég byrjaði náttúrulega á því að fletta upp þessu númerið þegar að ég lagði á og sá að það passaði. Þetta var númer hjá Sjónvarpinu. Svo ég hringdi í hana eftir nokkrar mínútur og spurði hana út í þetta hlutverk. Ég átti að mæta kl.14:00 og við fengjum mat upp í mötuneyti Sjónvarpsins. Síðan myndum við fara í sal þar sem við fengjum að sjá keppnina alla áður en hún væri sýnd beint. En þetta er gert til að hægt verði að grípa inn í með upptöku ef eitthvað gerist í útsendingu. Keppnin er sem sagt tvisvar keyrð. Fyrst fyrir upptöku og svo í beinni útsendingu. Síðan áttum við að kjósa og okkar atkvæði gilti að hluta til á móti símakosningu. Við vorum reyndar á öndverðum meiði miðað við þjóðina. Það var frekar fyndið. Nú við vorum ekki mörg, en til að sýna vinkonum mínum að ég hefði virkilega verið í Sjónvarpinu í dómnefnd, þá lét ég taka mynd af hópunum.
En það var Eurovistion partý hjá samstarfskonu okkar og þær voru mættar þar. Svo þegar að þær fóru að spyrjast fyrir um hvort að einhver vissi um mig, þá var ég búin að láta nokkra vita af þessu og bað sérstaklega um að þeim væri sagt að ég væri í Sjónvarpinu í dómnefnd. Auðvitað trúðu þær því ekki, en það var bara ennþá skemmtilegra.
Einn góður vinur minn hafði alltaf haft sérstak dálæti á henni Ragnheiði Clausen þulu og ég gat ekki staðist það að fá mynd af okkur tveimur saman. Var alveg ákveðin í því að gefa honum mynd af okkur tveimur "uppáhalds" konum hans. Eiginkona hans var mikið skemmt yfir þessari mynd sem ég færði honum, en eins og sést glögglega á þessari mynd þá var Ragnheiður förðuð fyrir myndavélina en ég var með... eh... smá maskara
En svo mætti ég auðvitað í partýið eftir þetta verkefni mitt hjá Sjónvarpinu og gerði í því að segja stelpunum, VINKONUM MÍNUM frá því hvað þetta hefði verið gaman. Við fengum fyrst þarna hádegismatinn, svo bjór og vín og snittur og snakk. Bara alvöru Eurovisionpartý.
En til að kóróna þetta skemmtilega partý þá bjó ég til "þakkarbréf" til þeirra frá Rúv, já eða þannig. Náði mér í logið skellti því á blað, setti myndina af dómnefndinni og sendi þeim sitt hvort þakkarbréfið. Þær vildu einhverra hluta vegna ekkert ræða þetta mál og minntust lengi vel ekkert á þetta þakkarbréf sem þeim barst.
Anna... twelve points!
Athugasemdir
Takk fyrir skjalið Anna mín.. þetta var óvænt gleði.. hjá öllum.
Erla Björg (IP-tala skráð) 4.5.2011 kl. 12:35
Híhíhíhíhí
Anna Viðarsdóttir, 4.5.2011 kl. 23:28
Ég kemst bara ekki yfir það hvað þetta var mikil snilld, af allra hálfu.
Alda (IP-tala skráð) 6.5.2011 kl. 09:18
Sammála þér. Þið eruð engum líkar. Svo ég tali nú ekki um þegar að þið eruð saman í ráðabruggi... þá er von á ýmsu
Anna Viðarsdóttir, 9.5.2011 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.