Lítil stúlka með langa fingur og aukinn orðaforða.

Þegar ég var lítil stúlka fór ég svo til daglega í búðina að beiðni mömmu minnar. Yfirleitt var þetta sama rútínan og ég var fengin til að kaupa það sem þurfti daglega í mjólk og brauði fyrir 7 manna fjölskyldu. En stórinnkaupin voru gerð á föstudögum í Hagkaup.

Þessar daglegu ferðir mínar upp í Grímsbæ voru eins og ég sagði hér fyrr föst rútína. En ég man eftir einni ferð sérstaklega. Þá bað mamma mig að fara eina auka ferð seinna um daginn. Þá var hún að brasa eitthvað og vantaði eitthvað smávegis til að geta haldið áfram. Ég var auðvitað til í það en spurði hvort að ég mætti kaupa poppmaís. Það var einhver þáttaröð að byrja um kvöldið og mig langaði að poppa og horfa á sjónavarpið. 

Mamma rétti mér einhverja seðla og sagði um leið að ef það væri afgangur mætti ég kaupa poppmais. Mín af stað upp í Grímsbæ, nánar tiltekið í Verslun Ásgeirs. Ég sæki mér körfu og týni til í körfuna það sem ég átti að kaupa fyrir mömmu. Þegar að allt er komið í körfuna og ég fullviss um að ekkert vantaði byrjaði mín að reikna saman... og viti menn. Það var ekki til fyrir poppmais! Arrg hvað ég varð fúl yfir því. Stóð fyrir framan rekkann þar sem maisinn var og reiknaði aftur. Neibb, hafði ekki einu sinni nóg fyrir litlum poka.

Þarna stóð ég svo svekkt. Hugsaði með mér að ég ætti kannski að reyna að sjá hvort að ég gæti fengið minni pakkningar í því sem ég var búin að kaupa, en það var ekki til. Þarna stóð ég alveg ótrúlega fúl yfir því að hafa ekki ráð á þessu. Allt í einu gríp ég poka, lítinn, og sting honum í vasann. Um leið og ég var búin að þessu, þá byrjaði hjartað að hamast og hamast og ég fann að ég var orðin eldrauð í framan. Úff, hvað var ég búin að gera? Fer að kassanum og raða upp úr körfunni á borðið og þori ekki að líta á stúlkuna sem afgreiddi mig.

Fannst eins og það væri neon skilti fyrir ofan mig sem sagði að hér væri þjófur. Þegar að ég rétti stúlkunni peningana þá titraði ég aðeins og stúlkan horfði einkennilega á mig. Ég spurði bara til að bjarga frá yfirliði hvort að ég væri örugglega ekki með nóg. Jú, jú, sagði hún. Þetta rétt passar og gefur mér einhverja mynt til baka. Ég horfi á peninginn í lofanum mínum og sé að ég hafði reiknað alveg rétt. Þetta var ekki nóg fyrir poppmaís.

Ég flýti mér að koma öllu ofan í innkaupanetið, sko engir plastpokar þar, og hleyt út. Hleyp heim og fannst aldrei hafa verið eins langt heim eins og þennan dag. Fannst allir vera að horfa á mig og að það sæist alveg utan á mér að ég hefði verið að stela. Loksins var ég komin heim. Hendist inn og slengi netinu upp á eldhúsborð. Segi svo mömmu með titrandi röddu að ég hafði ekki átt nóg fyrir poppmaís. Mamma veiddi upp strimilinn og sagði að henni þætti leitt að ég hafði ekki verið með nóg. 

...og þá sprakk ég. Ég byrjaði að grenja og grenja og grenja. Mamma horfði á mig undrandi og spurði hvað í ósköpunum hefði komið fyrir mig. Ég dró poppmaísinn upp úr vasanum og sagði henni að ég hefði tekið hann án þess að borga. Mamma horfði á mig undrandi og svo setti hún um stangan svip og sagði að hún hélt að ég vissi að þetta má bara alls ekki gera.  Ég sagði henni að ég vissi það alveg og sagði eins og er að ég vissi ekki af hverju ég hefði gert þetta. Mig hefði bara langað svo rosalega mikið í popp, en núna langaði mig ekkert í þetta og skutlaði pokanum upp á eldhúsborðið eins og hann væri eitraður.

Mamma horfði enn reiðilega á mig og sagðist ekkert skilja í mér að hafa gert þetta. Spurði svo hvort að ég lofaði að gera þetta aldrei aftur. Ég jánkaði því ákveðið og sagði að þetta myndi ég aldrei gera aftur, aldrei!

Þarna stóð ég fyrir framan mömmu eins og hver annar sakborningur sem vissi upp á sig skömmina og spurði hvort að ég yrði að skila honum. Nei, sagði mamma. Við skulum ekki gera neitt mál úr þessu ef þú lofar að gera þetta aldrei aftur. Já jánkaði því ákaft. Mamma snéri sér inn í eldhús en sagði við sjálfan sig lágt, en samt þannig að ég heyrði ég það óvart. "Hann er hvort sem er svo mikill orkrari" Ég vissi ekki hvað okrari þýddi og þorði ekki að spyrja mömmu því að ég vissi að ég átti ekki að heyra þetta. Fór samt fram og sótti orðbók og fletti orðinu upp.

Okrari : Maður sem orkrar, dýrseldur maður ???

Ég var engu nær. Sá orðið fyrir ofan : Okra, -aði. ... selja eitthvað allt of dýrt, græða óhóflega mikið á einhverju.

Mér létti pínulítið við þetta. Hann var búinn að vera að "græða á okkur" en ég ætlaði samt ekki að gera þetta aftur. Ekki að ræða það. Nú skildi ég af hverju mamma og pabbi versluðu svona mikið i risastóru Hagkaupsbúðinni í Skeifunni á föstudögum.

En ég lærði tvennt þennan eftirminnilega dag. 

  1. Það á ekki að stela.
  2. Okrari er orð yfir mann sem selur vöruna dýrt.

p.s. það var ekki poppað þetta kvöld. Hafði enga lyst á stolnu poppi FootinMouth

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband