17.6.2011 | 20:50
17. júní 1986
Ég man vel hvar ég var 17.júní fyrir tuttugu og fimm árum síðan. Það var árið sem ég var í Kaupmannahöfn. Góð vinkona mín, stúlka frá Noregi sem var með mér í skóla spurði hvort að ég væri ekki til í að koma með henni niður í bæ. Jú, það var ég meira en til í. Var ekki með nein plön og öll dagskrá hjá íslendingafélaginu í Köben á þessum tíma voru í einhverri deyfð. Ekkert að gerast þar, svo í bæinn var ég alveg til í.
Við fórum strax eftir skóla, þetta var á þriðjudegi að mig minnir. Ákváðum að fá okkur eitthvað að borða, en fyrst vildi hún að skjótast í Kristjaníu. Hmmm... já... hvað sagði hún? Kristjaníu? Jú jú ég var svo sem alveg til í að sjá þetta umdeilda hverfi sem var utan alls kerfis í Kaupmannahöfn. Hafði ekki farið þangað fyrr og neita því ekki að ég var pínu forvitin. Á þeim tíma voru íbúar Kristjaníu ekki mjög hrifnir af forvitunu fólki og þess vegna hafði ég ekkert verið að þvælast þangað. En vinkonan vildi endilega koma við þarna áður en við fengjum okkur að borða.
Að koma þangað inn er allt öðruvísi en í dag. Fyrir það fyrsta þá hefur svæðið minnkað og opnast. Þú gætir í dag álpast þangað inn án þess að fatta það, en á þessum tíma þá voru skilti og ýmislegt sem sagði þér að þú værir að fara inn á einkasvæði. Háar griðingar með hliðum sem hægt var að læsa. Alls staðar skilti um að það mætti ekki taka myndir.
Þarna inni var fólk eins og það væri í sumarfríi. Léttklædd börn að leik, fullt af hundum og ungir menn eða strákar að kasta bolta á milli sín eða að spila frisbee. Við löbbum um og ég er ein augu og reyni að gleypa í mig eins mikið og ég get án þess að það væri of áberandi.
Veitti því athygli að strákarnir sem voru þarna að leik, fylgdust alveg með okkur og ég var ekki alveg að kveikja strax, en þeir sögðu eitthvað sem minnti á hvæs og vinkona mín hrisssti höfðuðið. Mér leið alveg eins og kjána. Henni hafði sem sagt láðst að segja mér að hún ætti erindi þangað inn. En hana vantaði hass. Jebb hún var vön að blanda tóbaki saman við hass og reykja í pípu. En einhvern veginn hafði ég aldrei spurt hana neitt út í þetta eins og hvar hún keypti efnið, eða neitt. Vildi ekkert skipta mér neitt af þessum reykingum hennar.
Allt í einu "hvæsir" einn strákanna á okkur og mín vinkona kinkar kolli. Þá var þetta hvæs sem ég heyrði, bara þeir laumulega að segja hass. Vá hvað mér leið eins og bjána þarna. Stóð þarna eins og álka þegar að strákurinn gefur hinum merki um að hann taki pásu frá frisbee leiknum. Spyr hve mikið og hún svarar tíu grömm og hann dregur brúna hassplötuna upp úr rassvasanum og síðan litla vog upp úr framvasanum. Braut bút af plötunni og skellti í vogina. Sýndi henni og hún gaf samþykki sitt. Rétti honum seðla og tók við bútnum og hann var rokinn aftur í frisbee.
Ég hefði eiginlega vilja eiga upptöku af andlitinu á mér á meðan á þessu stóð. Var alveg örugglega með galopinn munninn eins og bjáni og ekkert nema augun, hahaha. Gleymi þessari athöfn seint.
Mín hefur sem sagt verið fylgimey í hassinnkaupum í Kristjaníu og það á sjálfan þjóðhátíðardag íslendinga!
Gleðilega hátíð!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.