Brúðkaup Huldu og Kristins Björgvins


Kannski hætt við að hætta

Má maður ekki alveg skipta um skoðun? Má ekki alveg hætta við að hætta?

Hux... hux... hux...

 - er aðeins að hugsa þetta -


Búið

Hætt öllu bloggi.

Polar Beer

1.júní 1983 þá fór í ásamt fjórum öðrum í smá reisu til Bretlands og meginlands Evrópu. Við silgdum með skemmtilferðaskip sem hét MS Edda og sigldi þetta eina sumar, til Newcastle og þaðan til Bremerhaven og svo Reykjavík aftur.

Við sigldum sem sagt til Newcastle og fórum í land þar. Ókum um Bretland og nokkur lönd á meginlandi Evrópu og tóku síðan ferjuna aftur í Bremerhaven til Reykjavíkur. Bæði í senn frábært ferðalag og alveg glatað. Við vissum ekkert hvað við vildum gera og það var bara farið af stað.

Um borð í MS Eddu vorum við mjög svo hrifin af Pola Beer bjórnum. Á þessum árum var ekki byrjað að selja bjór í Ríkinu og á veitingahúsum á Íslandi. Það var ekki fyrr en 6 árum síðar. Þannig að við vorum voða spennt fyrir því að fá okkur bjór. Sérstaklega Polar Beer.

Þá komum við að skondnu atviki sem gerðist þegar að við vorum í London. Við vorum á labbi eitt kvöldið og duttum inn á smá torg þar sem voru nokkur sölutjöld. Þar á meðal einn sem seldi ávexti. Við ákváðum að ná okkur í kvöldsnakk í formi ferskra ávaxta. Þarna vorum við fimm að skoða úrvalið og það kjaftaði á okkur hver tuskan. Kaupmaðurinn stóð rólegur hjá og hlustaði á blaðið í okkur. Allt í einu spyr hann okkur hvaðan við séum og hvaða tungumál við tölum. Við segjum honum það fúslega og hann horfði á okkur með smá áhuga og sagði okkur að hann vissi ekki til þess að hann hefði hitt íslendinga fyrr. En eitt sagðist hann vita um, en það væri að við værum með Polar Beer. Þetta fannst okkur frábært. Íslenski bjórinn væri þekktur í London!! Vá, við veðruðumst öll upp og fórum að segja honum frá því að það skrítna við þetta allt saman var að hann væri bannaður á Íslandi. Hann kváði og spurði hvað við værum að meina. Jú, það eru lög á Íslandi, að hann væri bannaður á Íslandi. Þú mátt taka með þér ákveðinn skammt þegar að þú kemur til landins. Sjómenn væru að smygla þessu til landsins og selja á svörtu. Hann horfði á okkur hissa og allt að því reiður. Spurði svo hvort að við værum að fíflast í honum. Nei, nei, alveg satt! Bannað með lögum. Starfsfólk flugfélaganna væri oft öfunduð af því að þau mættu koma með inn í landið ákveðinn skammt. Sendiráðin mættu bjóða upp á þetta,en ekki almenningur.

Hann var ekkert tilbúin að trúa þessu bulli í okkur. Saman hvað við reyndum að sannfæra hann. Sagði okkur bara að gera at í sér og honum þætti þetta ekkert fyndið.

Við skildum ekkert í hvað hann tók þessu illa og gáfumst upp á að reyna að sannfæra hann. Hann vildi greinalega bara losna við okkur sem allra fyrst.

Nokkrum dögum síðar erum við á ferð um Frakkland. Allt í einu hrópar einn ferðafélagi mitt upp skellihlægjandi : "Hann var að tala um ísbirni!" Hann þurfti ekki að segja meira, við föttuðum öll hvað hann var að tala um. Vá hvað við hlógum að eigin heimsku.


17. júní 1986

Ég man vel hvar ég var 17.júní fyrir tuttugu og fimm árum síðan. Það var árið sem ég var í Kaupmannahöfn. Góð vinkona mín, stúlka frá Noregi sem var með mér í skóla spurði hvort að ég væri ekki til í að koma með henni niður í bæ. Jú, það var ég meira en til í. Var ekki með nein plön og öll dagskrá hjá íslendingafélaginu í Köben á þessum tíma voru í einhverri deyfð. Ekkert að gerast þar, svo í bæinn var ég alveg til í.

Við fórum strax eftir skóla, þetta var á þriðjudegi að mig minnir. Ákváðum að fá okkur eitthvað að borða, en fyrst vildi hún að skjótast í Kristjaníu. Hmmm... já... hvað sagði hún? Kristjaníu? Jú jú ég var svo sem alveg til í að sjá þetta umdeilda hverfi sem var utan alls kerfis í Kaupmannahöfn. Hafði ekki farið þangað fyrr og neita því ekki að ég var pínu forvitin. Á þeim tíma voru íbúar Kristjaníu ekki mjög hrifnir af forvitunu fólki og þess vegna hafði ég ekkert verið að þvælast þangað. En vinkonan vildi endilega koma við þarna áður en við fengjum okkur að borða.

Að koma þangað inn er allt öðruvísi en í dag. Fyrir það fyrsta þá hefur svæðið minnkað og opnast. Þú gætir í dag álpast þangað inn án þess að fatta það, en á þessum tíma þá voru skilti og ýmislegt sem sagði þér að þú værir að fara inn á einkasvæði. Háar griðingar með hliðum sem hægt var að læsa. Alls staðar skilti um að það mætti ekki taka myndir.

Þarna inni var fólk eins og það væri í sumarfríi. Léttklædd börn að leik, fullt af hundum og ungir menn eða strákar að kasta bolta á milli sín eða að spila frisbee. Við löbbum um og ég er ein augu og reyni að gleypa í mig eins mikið og ég get án þess að það væri of áberandi.

Veitti því athygli að strákarnir sem voru þarna að leik, fylgdust alveg með okkur og ég var ekki alveg að kveikja strax, en þeir sögðu eitthvað sem minnti á hvæs og vinkona mín hrisssti höfðuðið. Mér leið alveg eins og kjána. Henni hafði sem sagt láðst að segja mér að hún ætti erindi þangað inn. En hana vantaði hass. Jebb hún var vön að blanda tóbaki saman við hass og reykja í pípu. En einhvern veginn hafði ég aldrei spurt hana neitt út í þetta eins og hvar hún keypti efnið, eða neitt. Vildi ekkert skipta mér neitt af þessum reykingum hennar. 

Allt í einu "hvæsir" einn strákanna á okkur og mín vinkona kinkar kolli. Þá var þetta hvæs sem ég heyrði, bara þeir laumulega að segja hass. Vá hvað mér leið eins og bjána þarna. Stóð þarna eins og álka þegar að strákurinn gefur hinum merki um að hann taki pásu frá frisbee leiknum. Spyr hve mikið og hún svarar tíu grömm og hann dregur brúna hassplötuna upp úr rassvasanum og síðan litla vog upp úr framvasanum. Braut bút af plötunni og skellti í vogina. Sýndi henni og hún gaf samþykki sitt. Rétti honum seðla og tók við bútnum og hann var rokinn aftur í frisbee. 

Ég hefði eiginlega vilja eiga upptöku af andlitinu á mér á meðan á þessu stóð. Var alveg örugglega með galopinn munninn eins og bjáni og ekkert nema augun, hahaha. Gleymi þessari athöfn seint.

Mín hefur sem sagt verið fylgimey í hassinnkaupum í Kristjaníu og það á sjálfan þjóðhátíðardag íslendinga! Shocking

Gleðilega hátíð!

 


Alveg snar...

Það var árið 1982 og ég hafði eignast minn fysta bíl. Austin Mini, eiturgrænan. Hann var alveg ferlega skemmtilegur í akstri og ég var hæstánægð með drossíuna mína. Var í skóla á þessum tíma og það var alveg ótrúlegt hvað það var hægt að troða mörgum inn í bílinn þegar að það þurfti að skjótast eitthvað í hádeginu eða úr Ármúlanum niður í Baldurshaga undir stúkunni í Laugardalsvegllinu, í leikfimi.

Talandi um leikfimi. Ég ákvað að gera eitthvað í líkamsræktarmálum mínum og hringdi í líkamsræktarstöð sem hét Orkuveitan og keypti mér kort hjá þeim. Nú átti að fara að lyfta og allt. Ég hafði farið beint eftir vinnu og skoðað staðinn. Leist vel á og ákvað að drífa mig bara strax, skaust heim til að sækja æfingarfatnað, handklæði og allt dótið sem þessu fylgir.

Þegar ég er lögð af stað að heiman með töskuna í bílnum, þá ek ég Réttarholtsveginn í norður. Þegar að ég kem niður af Réttarholtshæðinni og nálgast Sogaveginn þá sé ég að það kemur bíll að gatnamótunum og stoppar. En hann átti einmitt að gera það, því að þarna var stöðvunarskylda hjá þeim sem óku Sogaveginn. En allt í einu ekur hann af stað og ég verð að hægja á mér til að lenda ekki á honum. En viti menn, ég slapp við hann, en fyrir aftann hann var ungur strákur á litlum sendibíl og elti hann blindandi yfir án þess að stoppa. Hann leit ekki einu sinni í áttina til mín og beint inn í hliðna á Mini-inum mínum og sópaði mér upp á umferðareyju hinu megin við gatnamótin.  Þar var akbrautarmerki sem ég ók niður og greinilega losaði gírkassann undirvagninum frá því að gírstöngin sem stóð nokkra tugi cm upp úr gólfinu skall fram og lá flöt undir mælaborðinu.

Viðbrögð mín komu mér svo gjörsamlega á óvart. Ég hentist út úr bílnum og æddi að strákunum sem horfði dauðhræddur á þessa brjáluðu stelpu sem fór að arga á hann. Hvurn andsk%@*#... varstu að gera maður!! Sástu ekki að það er stöðvunarskylda hjá þér. Sem þýðir að þú átt að nema staðar við línuna og fullvissa þig um að það er óhætt að aka yfir. Svafstu yfir þig þegar að þetta var kennt í umferðaskólanum??!!! Ertu ekki örugglega með bílpróf??!!! Svona hélt ég áfram og jós skömmunum gjörsamlega yfir strákinn og ég vissi ekki einu sinni að ég hafði þennan orðaforða sem kom upp úr mér.

Þar sem þetta var fyrir tíma GSM timann þá rauk ég inn í verslun sem var þarna á horninu. Ennþá alveg öskureið og gargaði á tvær ungar konur sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð "Má ég biðja ykkur um að hringja á lögregluna fyrir mig. Strákfíflið eyðilagði bílinn minn" og svo var ég rokinn út aftur með látum og hurðin skall á hælum mér.

Æði út á gatnamótin aftur og þar stendur strákurinn eins og lúpa og tautar aftur og aftur : "Fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu" Ég sagði honum á háau nótunum að ég væri búin að láta hringja á lögguna til að taka skýrslu og bætti svo við bara svo að það væri á hreinu að hann væri fífl og hálfviti og ég veit ekki hvað og hvað. 

Ég görsamlega umturnaðist þarna í einhverri geðshræringu. Ég þekki bara ekki sjálfan mig, en mér var andsk... sama. Strákfíflið eyðilagði fína bílinn minn sem ég var svo ánægð með. Ég var búin að eiga þennan bíl í 45 daga og hafði ætlað mér að eiga hann allavega eitt ár eða meira.

Þar sem ég stend þarna og eys skömmum yfir strákinn sem í sífellu tautaði "fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu... " þá kemur Svarta María aðsvífandi. Um leið og lögreglumaðurinn stekkur út úr bílnum og byrjar að ganga til okkar argar strákurinn : "ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA! ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA! ÞETTA ER ALLT MÉR AÐ KENNA!"

Mér bregður svo rosalega og verð svo mikið um þetta, að ég finn hvernig allt dofnar í líkamanum mínum. Ég snögg róaðist þarna og dauðskammaðist mín fyrir lætin sem ég hafði verið með. Lögeglumaðurinn tók utan um axlirnar á stráknum og leiddi hann að bílum og sagði við skyldum nú alveg vera róleg hérna og gera skýrslu um þetta. Þetta var frekar skondin sena. Við sátum inn í bílnum og ég sagði ekki orð, en hann hélt áfram að tauta um það að þetta væri allt honum að kenna. Lögreglumaðurinn gat með því að spyrja okkur beint út í atriði fengið mynd á málið. En þarna sat ég hljóð og hann eins og geðsjúklingur með atvikið á heilanum. Herra Guð hvað ég skammaðist mín mikið. En við klárðum skýrsluna og eins við var að búast þá var ég í 100% rétti.

Svo þegar að við erum að stíga út úr bílnum, þá kemur mín elskulega systir að, á heim úr vinnu og stoppaði þegar að hún sá bílinn minn og mig koma úr lögreglubílnum. Henni dauðbrá og spurði hvort að það væri ekki allt í lagi með mig. Jú, jú, ég var bara að lenda í árekstri og bíllinn er óökufær. Hún baust til að skutla mér heim. Ég þurfti að fara í bílinn minn og tæma hann af persónulegum munum. Íþróttataskan þar á meðal. Svo kemur dráttarbíll og hann dregur bílinn minn í burtu. 

Ég sest upp í bíl systir minnar og tek þá eftir því að ég var með sár á hné og gat á buxunum. Hún spurði hvort að ég væri alveg örugglega í lagi og ekkert slösuð. Þá brotnaði mín alveg og tárin fóru að leka niður. Svo hrisstist ég og skalf eins og mér væri borgað fyrir það. Sagði henni hvað ég hefði verið vond við strákinn. Hún sagði mér hughreistandi að hann hefði bara vonandi lært af þessu og færi eftir umferðarreglunum framvegis. Það var fyrir bestu að enginn slasaðist.

En líklega þegar að fólk lendir í svona áfalli eins og þessi strákur. Að fá yfir sig svona brjálæðing eins og mig, þá bregst heilinn þannig við að hann hjálpar þér að gleyma slæmum minningum. Því að mörgum árum seinna þá sá ég mynd af þessum strák hjá vinkonu minni og ég benti á hann og sagði henni frá þessu atviki. Hún hló og sagðist ætla að bera þessa sögu undir hann næst þegar að hún hitti hann, því að hann var í bíladellusamfélagi með henni.

Jú, jú, stuttu seinna hitti ég vinkonu mína aftur og sagði að hún hefði hitt hann og nefnt þetta við hann. Hans viðbrögð voru :

"Já, var það vinkona þín sem var á bremsulausa bílunum" ?! W00t

 

p.s. eitt "græddi" ég á þessu. Systir ákvað a kaupa sér kort í stöðinni sem ég var að byrja í og við fórum saman í ræktina. Það var mjög gaman.

p.p.s Ég fékk far með henni, sko Wink


Lítil stúlka með langa fingur og aukinn orðaforða.

Þegar ég var lítil stúlka fór ég svo til daglega í búðina að beiðni mömmu minnar. Yfirleitt var þetta sama rútínan og ég var fengin til að kaupa það sem þurfti daglega í mjólk og brauði fyrir 7 manna fjölskyldu. En stórinnkaupin voru gerð á föstudögum í Hagkaup.

Þessar daglegu ferðir mínar upp í Grímsbæ voru eins og ég sagði hér fyrr föst rútína. En ég man eftir einni ferð sérstaklega. Þá bað mamma mig að fara eina auka ferð seinna um daginn. Þá var hún að brasa eitthvað og vantaði eitthvað smávegis til að geta haldið áfram. Ég var auðvitað til í það en spurði hvort að ég mætti kaupa poppmaís. Það var einhver þáttaröð að byrja um kvöldið og mig langaði að poppa og horfa á sjónavarpið. 

Mamma rétti mér einhverja seðla og sagði um leið að ef það væri afgangur mætti ég kaupa poppmais. Mín af stað upp í Grímsbæ, nánar tiltekið í Verslun Ásgeirs. Ég sæki mér körfu og týni til í körfuna það sem ég átti að kaupa fyrir mömmu. Þegar að allt er komið í körfuna og ég fullviss um að ekkert vantaði byrjaði mín að reikna saman... og viti menn. Það var ekki til fyrir poppmais! Arrg hvað ég varð fúl yfir því. Stóð fyrir framan rekkann þar sem maisinn var og reiknaði aftur. Neibb, hafði ekki einu sinni nóg fyrir litlum poka.

Þarna stóð ég svo svekkt. Hugsaði með mér að ég ætti kannski að reyna að sjá hvort að ég gæti fengið minni pakkningar í því sem ég var búin að kaupa, en það var ekki til. Þarna stóð ég alveg ótrúlega fúl yfir því að hafa ekki ráð á þessu. Allt í einu gríp ég poka, lítinn, og sting honum í vasann. Um leið og ég var búin að þessu, þá byrjaði hjartað að hamast og hamast og ég fann að ég var orðin eldrauð í framan. Úff, hvað var ég búin að gera? Fer að kassanum og raða upp úr körfunni á borðið og þori ekki að líta á stúlkuna sem afgreiddi mig.

Fannst eins og það væri neon skilti fyrir ofan mig sem sagði að hér væri þjófur. Þegar að ég rétti stúlkunni peningana þá titraði ég aðeins og stúlkan horfði einkennilega á mig. Ég spurði bara til að bjarga frá yfirliði hvort að ég væri örugglega ekki með nóg. Jú, jú, sagði hún. Þetta rétt passar og gefur mér einhverja mynt til baka. Ég horfi á peninginn í lofanum mínum og sé að ég hafði reiknað alveg rétt. Þetta var ekki nóg fyrir poppmaís.

Ég flýti mér að koma öllu ofan í innkaupanetið, sko engir plastpokar þar, og hleyt út. Hleyp heim og fannst aldrei hafa verið eins langt heim eins og þennan dag. Fannst allir vera að horfa á mig og að það sæist alveg utan á mér að ég hefði verið að stela. Loksins var ég komin heim. Hendist inn og slengi netinu upp á eldhúsborð. Segi svo mömmu með titrandi röddu að ég hafði ekki átt nóg fyrir poppmaís. Mamma veiddi upp strimilinn og sagði að henni þætti leitt að ég hafði ekki verið með nóg. 

...og þá sprakk ég. Ég byrjaði að grenja og grenja og grenja. Mamma horfði á mig undrandi og spurði hvað í ósköpunum hefði komið fyrir mig. Ég dró poppmaísinn upp úr vasanum og sagði henni að ég hefði tekið hann án þess að borga. Mamma horfði á mig undrandi og svo setti hún um stangan svip og sagði að hún hélt að ég vissi að þetta má bara alls ekki gera.  Ég sagði henni að ég vissi það alveg og sagði eins og er að ég vissi ekki af hverju ég hefði gert þetta. Mig hefði bara langað svo rosalega mikið í popp, en núna langaði mig ekkert í þetta og skutlaði pokanum upp á eldhúsborðið eins og hann væri eitraður.

Mamma horfði enn reiðilega á mig og sagðist ekkert skilja í mér að hafa gert þetta. Spurði svo hvort að ég lofaði að gera þetta aldrei aftur. Ég jánkaði því ákveðið og sagði að þetta myndi ég aldrei gera aftur, aldrei!

Þarna stóð ég fyrir framan mömmu eins og hver annar sakborningur sem vissi upp á sig skömmina og spurði hvort að ég yrði að skila honum. Nei, sagði mamma. Við skulum ekki gera neitt mál úr þessu ef þú lofar að gera þetta aldrei aftur. Já jánkaði því ákaft. Mamma snéri sér inn í eldhús en sagði við sjálfan sig lágt, en samt þannig að ég heyrði ég það óvart. "Hann er hvort sem er svo mikill orkrari" Ég vissi ekki hvað okrari þýddi og þorði ekki að spyrja mömmu því að ég vissi að ég átti ekki að heyra þetta. Fór samt fram og sótti orðbók og fletti orðinu upp.

Okrari : Maður sem orkrar, dýrseldur maður ???

Ég var engu nær. Sá orðið fyrir ofan : Okra, -aði. ... selja eitthvað allt of dýrt, græða óhóflega mikið á einhverju.

Mér létti pínulítið við þetta. Hann var búinn að vera að "græða á okkur" en ég ætlaði samt ekki að gera þetta aftur. Ekki að ræða það. Nú skildi ég af hverju mamma og pabbi versluðu svona mikið i risastóru Hagkaupsbúðinni í Skeifunni á föstudögum.

En ég lærði tvennt þennan eftirminnilega dag. 

  1. Það á ekki að stela.
  2. Okrari er orð yfir mann sem selur vöruna dýrt.

p.s. það var ekki poppað þetta kvöld. Hafði enga lyst á stolnu poppi FootinMouth

Ekki öll þar sem ég er séð

Fyrir rúmu ári síðan fór ég til Noreges í þrjár heimsóknir. Fyrsta heimsóknin var til góðrar vinkonu minnar sem er norsk og ég kynntist henni í Kaupmannahöfn fyrir 25 árum síðan. Var hjá henni í nokkra daga og síðan lá leið mín til Stavanger eða öllu heldur Sola sem er eins og Keflavík Reykjavíkur. En vélin sem ég var bókuð á fór án mín. Frekar fúllt. Ég lenti í því að lestin sem ég fór með á flugvöllin frá norsku vinkonu minni var biluð. Það var bilun í einhverri hurðinni og lestin fór mun hægar en vanalega og seinkaði heil ósköp. Sem varð til þess að ég kem á flugvöllin tíu mín í flugtak. Þetta er lítill flugvöllur og þú labbar bara nokkra metra út í vélarnar. Þarna stóð ég við afgreiðsluborðið og horfði á flugvélina mína út um gluggan, en mátti ekki koma um borð. Sama hvað ég reyndi, nei, þetta voru reglur fyrirtækisins. Svo stóðum við þarna við afgreiðsluborðið og horfðum á flugvélina... þangað til hún fór. Þarna voru fimm konur að "vinna" eða segjum rétt frá við halda slúðri og enginn áhugi á að sýna liðlegheit. Mér leið ögn eins og ég væri stödd í austantjaldslandi : Þetta eru reglur og þeim ber að hlýta! Ég með eina tösku og þeir voru bara að vippa töskunum um borð, en reglur eru reglur.

Ég fór því þremur tímum seinna með vél sem fór til Bergen og þaðan til Sola. Ég var svo sem ekkert í neinni tímapressu, en lét æskuvinkonu mína vita að mér seinkaði til muna. Í stað að hittast í morgunkaffi, þá yrði það bara síðdegiskaffi. Ekkert mál hjá henni, þessari elsku. Hlakkaði bara til að sjá mig.

Svo loksins fer ég um borð í flugvél, til Bergen. Þar þurfti ég svo að bíða í rúman klukkutíma. Það var svo sem ekkert mál. Fékk mér smá hádegismat og settist niður með bók.

Allt í einu finn ég að það er verið að horfa á mig. Ég lít upp og á móti mér sat maður sem leit strax undan um leið og ég leit upp. Hmm... þetta var eitthvað skrítið viið þetta. Stuttu seinna finn ég að það er verið að fylgjast með mér frá öðrum stað. Þarna var par sem var greinilega að horfa á mig og voru allt í einu voða upptekin við að tala saman þegar að ég leit upp. Bæði alveg að drepast úr hlátri. Mér var nú ekki farið að standa á sama. Sá að maðurinn sem sat gegnt mér var laumulega að gefa mér auga. Svo voru tveir sem stóðu fyrir aftan þetta fólk sem voru greinilega að tala um mig og fannst eitthvað voða fyndið.

Nú var mér alveg hætt að standa á sama. Loka bókinni og hugsa með mér að fara inn á salerni kíkja í spegil og tékka á ástandi á mér. En um leið og ég lokaði bókinni þá fattaði ég hvað fólkið var að hlægja að. Íslenskan getur stundum komið manni í vandræði...

 

sex 001

Þau héldu örugglega að ég væri "pornodog"


Ekki létt

Fékk smá sjokk í gær. Þannig er mál með vexti að í fyrra keypti ég mér einfaldar svartar buxur. Buxur sem eru úr teyjuefni og flott að nota undir skokka og kjóla. Hver vill ekki eiga svartar þægilegar einfaldra buxur til að smegja sér í og fer vel undir skokkum og þess háttar toppum? Nauðsynlegt Wink En þessar buxur voru alltaf að pirra mig smá. Fannst teygjan í strengnum ögn agressív. Þar sem mittið mitt er frekar mjúkt þá var teygjan full frek. Eins var ízetan aðeins of stutt og mér fannst buxurnar togast of mikið upp. Þetta var eiginlega frekar pirrandi og ég var eiginlega hætt að nota buxurnar.

Svo í vikunni, þá var eg eitthvað að spá í hvort að ég ætti ekki bara að sauma mér nýjar buxur. Hafa þær extra þægilegar með breiðri teygju í mittið. En þá fékk ég þessar snilldar hugmynd að breyta bara þessum. Keypti mér breiða teygju. Spretti upp strengnum og burt með gömlu teygjuna. Saumaði þessa nýju í og hækkaði ízetuna með því að lyfta upp faldinum sem gamla teygjan var í.

Alveg snilldar hugmynd. Breið teygja og vel upp á magann. Ekkert sem þrengir að og maginn bara sléttari og fínni... en bíddu... á hvað minna mig þessar buxur eins og þær eru núna? Jú... buxur sem óléttar konur ganga í!!

Þar hafið þið það! Ég er greinilega ekki létt og það segir mér eitt

... ég er "óléttFrown


Ég er löt

Hvernig er hægt að vera svona latur? Ég er svo löt að það er skömm frá því að segja. Nenni hreinlega ekki neinu. Ef reyndar alltaf verið frekar löt og þurft að hafa mikið fyrir því að gera hlutina. Eitt hef ég reyndar stundum gert. Ég legg kannski mikla vinnu í eitthvað sem ég veit að ég á eftir að þurfa að gera oft seinna meir, til að næstu skipti verði mér auðveldari.

Eins og t.d. þá nota ég excel mikið í vinnunni. Bý mér til skjal sem reiknar út þá útkommu sem ég sækist eftir. Legg vinnu í að gera skjalið í upphafi og svo þegar að það er búið, þá þarf bara að setja í viðeigandi breytur í skjalið og útkomman er komin. Nenni ekki að hafa fyrir vinnunni. Geri mér hana eins auðvelda og hægt er, en án þess að það komi niður á afköstum og gæðum.

Geng alltaf frá hlutunum á sinn stað af því að ég nenni ekki að taka til. Nenni ekki að hafa allt í drasli og þurfta svo kannski að hlaupa til og taka til af því að það er einhver að slysast í heimsókn. 

Leiðist alveg svakalega að elda mat. Úff hvað það er leiðinlegt. Allur þessi tími sem fer í að undirbúa matinn. Þvo áhöldin sem ég notaði í matreiðslunni, á með að maturinn er að eldast. Svo er gúffað í sig á mettíma og síðan að ganga frá og vaska upp. Þetta tekur alveg fáránlega langan tíma. Væri alveg til í að gera eitthvað annað við þennan tíma sem fer í undirbúning og frágang. Eins og t.d. að gera ekki neitt! Það væri sko sældar letilíf.

Svo þarf ég að fara að hreyfa mig meira. En ég nenni því ekki! Enda sést það á mér. Leitihaugur dauðans hvað það varðar. Það er ekki eins og það sé erfitt fyrir mig að nálgast umhverfið. Frábærir göngustígar í nágrenninu. Stutt í Úlfarsfellið og öll hin fellin í Mosó. Neibb, nenni því ekki. Sit frekar í lazy boy og gera ekki neitt. Esjan blasir við mér úr eldhúsglugganum, en ekki nenni ég að kíkja á hana í nærmynd. Tvær flottar líkamsræktarstöðvar í nágrenninu, World Class í Spöng og Heilsuakademían í Egilshöll. Ó nei, ég nenni því ekki!!

Fór með hjólið mitt í stillingu síðasta haust. Var á leiðinni allt sumarið með það í stillingu, en það var ekki fyrr en í september sem ég druslaðist með það á verkstæðið hja Erninum og fékk þá til að yfirfara það. Frekar nýtt hjól sem ég á, en var leiðinlegt að hjóla á því. Ég fékk að heyra það hjá gaurnum sem afgreiddi mig þegar að ég sótti það á verkstæðið. Hann sagði mér það bara hreint út að það sem væri að hrjá þetta hjól væri notkunarleysi. Oh ætli ég viti það ekki alveg. Það þurfti nú ekki verkstæðiskarl til að segja mér það, en einhverra hluta vegna fannst honum hann þurfa að benda mér á það. Ég nennti ekki að hlusta á röflið í honum og skellti hjólinu inn í bíl og ók með það heim. Ekki séns að ég nennti að hjóla heim. Glætan!

Svo ætlaði ég að vera voða dugleg og æfa mig í að segja frá mis skemmtilegum atvikum mér tengdu hér á þessari síðu, en það er ekki að sjá að ég sé að standa mig. Líður langt á milli blogga.

Æ, ég nenni þessu ekki.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband