Færsluflokkur: Bloggar

Af litlum gullfiski...

Kannski fyrst að ég var byrjuð að tala um þessar eðalvinkonur mína Erlu og Öldu að ég haldi því ögn áfram. Þær eru margar sögurnar sem ég get sagt um þær tvær, en við ritskoðun þá eru sumar ekki prenthæfar. En nú langar mig að segja frá einu sem fáir vita. En allt vegna uppátækis þessara tveggja prakkara þá varð til heild deild í Garðheimum!

Það var að áliðnum slætti 1999 sem þetta allt byrjaði. Nánar tiltekið 24.ágúst 1999. En þá ákváðu þessar elskur að gera eitthvað fyrir mig í tilefni afmælis míns. Ég var auðvitað búin að baka tertu fyrir afmælið mitt, enda ekki annað hægt. Hafði fengið skilaboð á hverjum degi í 8 daga á undan afmæli mínu, minnismiða sem minntu mig á hvað það væru margir dagar til afmælis míns og nett áminning um að það væri ætlast til þess að afmælisbarnið kæmir með eitthvað gott með kaffinu.

Í hádeginu þennan afmælisdag fór þær tvær niður í Mjódd. Nánar tiltekið í gældudýraverslun. Fundu þennan fallega gullfisk handa mér. Fengu hann í plastapoka með sér og mættu upp í vinnu. Stóðu fyrir framan mig með púkasvip Devil Devil og hendur fyrir aftan bak. Ég vissi að það var ekki von á góðu og fann hvernig stressið byrjaði að hellast yfir mig. Þarna stóðu þær að mér fannst óendalega lengi áður en þær skelltu fram pokanum með appelsínugula gullfiskinum fram og sögðu í kór : Til hamingju með afmælið!

Ég glápti á gullfiskinn, tók við pokanum eins og í leiðslu og spurði eins og fífl. Hvað á ég að gera við þetta. Þær sögðu það ekki vera sitt mál. Ég ætti hann og hann væri minn og mín ábyrgð.

Þetta er það sem ég kalla bjarnargjöf.  Ég hafði ekkert vit á gullfiskum og ekki nokkurn áhuga á þeim. Ég fór á algjöra flækju og varð alveg ráðþrota. Sótti skál eða eitthvað fat og gellti honum varlega í ílátið. Spurði svo stelpurnar hvað ég ætti að fóðra hann með og þær svöruðu mér að ég yrði bara að tala við þau í gæludýraverslunni. Ekki kunnu þær á gullfiska, enda átti ég hann ekki þær.

Þá kom í ljós að Anton vinnufélagi minn vissi heilmikið um þetta. Hann kom eins og engill sendur til mín og sagði mér hvað ég ætti að gera ef ég ætlaði að halda honum. Ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo við Gísla yfirmann minn að mig hafi alltaf langað í rakatæki inn á skrifstofu, hvort að ég mætti ekki kaupa nett fiskabúr. Ég væri komin með íbúa. Jú, það var auðsótt mál og fór Anton í málið fyrir mig, sem betur fer ég segi nú ekki annað.

Búrið kom í hús og Anton var með alls konar gróður og ég veit ekki hvað og hvað fyrir fiskinn. Þetta varð bara verulega snyrtilegt og smart þarna inni á skrifstofu hjá mér og áður en ég vissi fjölgaði í búrinu. Ég hafði gefið fiskinum nafnið Ókindin eða Jaws. Fannst þessi litli fiskur verða að fá stórt nafn. Svo voru kominir fleiri fiskar að sömu og öðrum tegundum sem báru nöfn eins og Alda, Erla, Anton, Svavar... agalega ófrumlegt eða þannig.

En svo heyrði Gísli að Anton væri bara mjög vel að sér í þessu og þeir ræddu þetta fram og til baka. Eftr þetta spjall þeirra, þá var Gísli ákveðinn í því að setja upp gæludýradeild í Garðheimum.

Þannig að, af litlum fiski verður heil gæludýradeild til Pinch


Eurovision hvað?

Árið 2000 þá hætti ég að vinna hjá Garðheimum. Tvær sem ég einhverra hluta vegna kalla vinkonur mínar, ákváðu þegar að þetta var að gerast að þær skildu "gleðja" mig einu sinni í viku á uppsagnartímanum mínum. Þær voru að vinna með mér og var því auðvelt að fær mér þessa glaðninga. Þetta voru alls konar gjafir og fíflagangur sem þolir ekki að verði sett á internetið. En ég byrjaði síðan aftur í Garðheimum fjórum árum seinna. Enda þar á ég heima.

En, eitt af "gjöfunum" þeirra var að skrá mig sem dómara í söngvakeppni sjónvarpstöðvanna, betur þekkt sem Eurovision. Þær höfðu séð skjáauglýsingum hjá Rúv þar sem auglýst væri eftir fólki til að taka að sér þetta dómarahlutvert.  En þær voru of seinar. Þegar að þær hringdu inn þá var búið að skipa í öll sæti og ekki fékk ég pláss. Þær voru nú ekkert sérstaklega sáttar við þetta og til að reyna að gera eitthvað fengu þær vin sinn til að hringja í mig og þykjast vera frá Rúv að bjóða mér sæti í dómnefnd. Ég lét ekki platast og strákurinn var frekar fúll að ég skildi ekki bíta á agnið. En hrekkjusvín þekkir hrekkjusvínatakta þegar að þeir birtast.

En viti menn, það losnaði allt í einu eitt sæti og konan hjá Sjónvarpinu ákveður að hringja í mig og spyrja hvort að ég hafi áhuga. En þær þessar elskur höfðu skilið eftir upplýsingar um mig ef það skildi losna sem það og gerði. Enn var ég var um mig, samt... hún var frekar sannfærandi. Svo ég sagðist vera aðeins upptekin með fólk hjá mér, hvort að ég mætti hringja í hana eftir örfáar mínútur. Jú ekkert mál og gaf mér upp símanúmerið hjá sér. Ég byrjaði náttúrulega á því að fletta upp þessu númerið þegar að ég lagði á og sá að það passaði. Þetta var númer hjá Sjónvarpinu. Svo ég hringdi í hana eftir nokkrar mínútur og spurði hana út í þetta hlutverk. Ég átti að mæta kl.14:00 og við fengjum mat upp í mötuneyti Sjónvarpsins. Síðan myndum við fara í sal þar sem við fengjum að sjá keppnina alla áður en hún væri sýnd beint. En þetta er gert til að hægt verði að grípa inn í með upptöku ef eitthvað gerist í útsendingu. Keppnin er sem sagt tvisvar keyrð. Fyrst fyrir upptöku og svo í beinni útsendingu. Síðan áttum við að kjósa og okkar atkvæði gilti að hluta til á móti símakosningu. Við vorum reyndar á öndverðum meiði miðað við þjóðina. Það var frekar fyndið. Nú við vorum ekki mörg, en til að sýna vinkonum mínum að ég hefði virkilega verið í Sjónvarpinu í dómnefnd, þá lét ég taka mynd af hópunum.

eurovision_002.jpg

En það var Eurovistion partý hjá samstarfskonu okkar og þær voru mættar þar. Svo þegar að þær fóru að spyrjast fyrir um hvort að einhver vissi um mig, þá var ég búin að láta nokkra vita af þessu og bað sérstaklega um að þeim væri sagt að ég væri í Sjónvarpinu í dómnefnd. Auðvitað trúðu þær því ekki, en það var bara ennþá skemmtilegra. 

Einn góður vinur minn hafði alltaf haft sérstak dálæti á henni Ragnheiði Clausen þulu og ég gat ekki staðist það að fá mynd af okkur tveimur saman. Var alveg ákveðin í því að gefa honum mynd af okkur tveimur "uppáhalds" konum hans. Eiginkona hans var mikið skemmt yfir þessari mynd sem ég færði honum, en eins og sést glögglega á þessari mynd þá var Ragnheiður förðuð fyrir myndavélina en ég var með... eh... smá maskara

eurovision_003.jpg

En svo mætti ég auðvitað í partýið eftir þetta verkefni mitt hjá Sjónvarpinu og gerði í því að segja stelpunum, VINKONUM MÍNUM frá því hvað þetta hefði verið gaman. Við fengum fyrst þarna hádegismatinn, svo bjór og vín og snittur og snakk. Bara alvöru Eurovisionpartý.

En til að kóróna þetta skemmtilega partý þá bjó ég til "þakkarbréf" til þeirra frá Rúv, já eða þannig. Náði mér í logið skellti því á blað, setti myndina af dómnefndinni og sendi þeim sitt hvort þakkarbréfið. Þær vildu einhverra hluta vegna ekkert ræða þetta mál og minntust lengi vel ekkert á þetta þakkarbréf sem þeim barst.

eurovision_001.jpg

Anna... twelve points!


Nískupúkinn ég

Það er eiginlega frekar fyndið að í mörg ár er ég búin að vera að horfa á snyrtitösku frá Marimekko sem mig langar í en aldrei látið það eftir mér að splæsa henni á mig. Ég meina hvað oft er ég búin að sjá hana í verslunum út um allt. Bæði hér á landi og erlendis. Alltaf þegar að ég fer í gegnum Leifsstöð þá kíki ég á þessar töskur og hugsa... á ég... á ég ekki... og það er alltaf saman sagan hjá mér. Anna þú kaupir ekki snyrtitösku sem kostar 6.900 kr. undir eitthvað snyrtidótadrasl!!! Ég er náttúrlega algjör Jóakim önd sem kaupir ekki dýra hluti handi mér. Það er hægt að kaupa margt annað sem kostar minna og þjónar sama tilgangi. Ég á samt ótrúlega margar ljótar snyrtitöskur sem mig langar ekki að nota. Hmm... það segir mér kannski eitthvað?

Svo um daginn þá var ég með saumaklúbb. Svo sem ekkert merkilegt við það. Skemmtilegar stelpur og samkjöftuðu ekki og allt eins og það á að vera. Tvær þeirra höfðu verið á sama ballinu helgina áður og voru að hlægja að viðbrögðum annarra þeirra þegar að hún fór á barinn. Bað um Margarítu, sem er note bene uppáhalds áfengi drykkurinn minn í dag. Þjonninn blandar þennan dýrindis drykk handa henni og skellir honum upp á borð og segir : "1.700 kr" Hún GARGAR á þjóninn SAUTJÁNHUNDRUÐ KRÓNUR!  SAUTJÁNHUNDRUÐ KRÓNUR! FYRIR EITT GLAS! Þjóninn varð hálf vandræðalegur og sagði bara eins og er að hann ynni bara þarna. Það væri ekki hann sem ákveddi hvað drykkirnir kostuðu. Hún róaðist aðeins niður og rétti honum síðan debetkortið sitt og borgaði sínar sautjánhundruð krónur. Hún keypti ekki fleiri Margarítur þetta kvöldið.

En þetta fékk mig til að hugsa. Jahérna hér... ef það kostar 1.700 kr að kaupa eitt glas á bar og ef ég færi á trjúttið og keypti mér fjögur glös af Margarítu þá væri það sama verð og fyrir eina snyrtitösku frá Marimekko.

Daginn eftir þá "datt ég í það". Fór í Epal og splæsti á mig einni tösku frá Marimekko. Ég er svo ánægð með hana að hún fær ekki að fara inn í skáp. Hún fær að vera upp á borði inn á baði hjá mér. Fína flotta MarimekkoMargarítuSnyrtitaskan mín.

marimecco_001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Kveðja,

Anna sukkari

...áður Jóakim Önd.


Ég er stífla

Hef oft gert nett grín af mér, varðandi stærðina. En núna get ég sagt með réttu að ég er stífla. án þess að skrökva nokkuð þá get ég með réttu sagt að ég sé stífla. Mitt breiða bak, mínar mjúku lendar, mín þykku læri... allt þetta gerir mig að stíflu. Þetta er í senn bæði grátlegt og broslegt. Maður ætti kannski að gera eitthvað í þessu? Hver vill vera stífla? Ekki ég! En staðreyndin er samt þessi, ég er stífla. Spurning hvort að það er hægt að gera virkjun, en nei ég held að það sé ekkert að græða á þessu. Ég er bara einföld stífla sem ekki er hægt að virkja.

Ég man svo vel eftir því þegar að ég áttaði mig á þessu. Ég varð svo hissa. Hló eins og kjáni og fann að ég roðnaði smá. Alli kallaði til mín og spurði hvort að það væri ekki allt í lagi hjá mér. Jú ég sagði honum að það væri allt í lagi með mig eða þannig. Væri bara búin að uppgötva það að ég væri stífla. Hann ætlaði ekki að hætta að hlæja þessi púki. Fattaði strax hvað ég var að meina. En ég var bara að lesa svo skemmtilega bók, gleymdi að ég var búin að taka tappann úr baðkarinu og svo þegar að ég stóð upp þá fossaði allt vatnið sem ég geymdi á bak við mig fram og skvettist um allar áttir. Ég sem sagt síflaði stóran hluta vatnsins í baðkarinu þegar að ég sat í því. Svo þegar að ég stóð upp búin að tæma það sem var fyrir framan mig, nú þá náttúrlega...  já, ÉG ER STÍFLA Blush

Stíflanna


Ef ég væri orðin lítil fluga

Það var árið 1987 sem ég og vinkona mína ákváðum að kíkja til Amsterdam í 5 daga. Við fórum á fimmtudegi og vorum ekki með nein sérstök plön í huga. Föstudagurinn fór í svona almennt ferðamannadæmi. Fórum í siglingu um síkin og skoðum nokkra áhugaverða staði. Eitthvað rólegar síðan um kvöldið, en vorum ákveðnar í að fara eitthvað á skrall á laugardagskvöldinu. Byrjðum laugardagskvöldið á fá okkur að borða á frábærum veitingastað á hótelinu og eftir matinn fórum á hótelbarinn. Vorum búnar að sitja þar í smá stund þegar að inn kemur 11 manna hópur af íslenskum dúklagningarmönnum. Þeir voru á námskeiði á vegum dúkasölufyrirtækis í Reykjavík. Þeir vorum búnir að vera þarna í nokkra daga og búnir að skanna alla borgina öll kvöld. Voru fljótir að ákveða að þeir myndu fara með okkur út og sýna okkur hvað borgin hafði upp á að bjóða.

Við þáðum það með þökkum, en þeir voru með eindæmum hressir og skemmtilegir þessir menn. Þeir byrjuðu auðvitað á að labba með okkur um Rauða hverfið sem var ekki langt frá hótelinu. Þar voru þessir frægu gluggar með kvenfólkinu sem hverfið er þekkt fyrir. Sitjandi á stól og blikka strákana þegar að þeir litu til þeirra. En smá útúrdúr... þekki eina sem rambaði óvart inn í hverfið með börnin sín. Gekk út um bakdyr á veitingastað sem þau hefðu verið á og þegar eldra barnið (strákur) spyr hvers konar "búðir" þetta væru. Þá var hún fljót að redda sér með að segja að þetta væru "húsgagnaverslanir" af því að það var iðulega stóll og smá borð í gluggunum. Krökkunum fannst þetta einkennilegar útstillingar, en fengu ekkert nánar að skoða það þar sem mamman hljóp á ofurhraða úr hverfinu með börnin í eftirdragi. En þetta var bara smá útúrdúr.

Við löbbuðum um helstu götur og stræti borgarinnar. Enduðum síðan inn á skemmtilegum pianobar sem bar hið einfalda nafn: The Piano Bar. Það var þokkalegur fjöldi að fólki þarna inni, en fljótlega tókst okkur að troða okkur inn í einn bás. Svo fylltist staðurinn gjörsamlega og var greinilega mjög vinsæll staður. Vorum bara heppin að fá þennan bás fyrir hópinn.

Ég tók eftir því að pianistinn sem spilaði þetta kvöld, var alveg sérstaklega góður í að taka alls konar óskalög og spilaði eins og hann hefði spilað þessi lög í mörg ár. Þar sem ég var með myndavéladellu þá varð ég að auðvitað að taka mynd af þessum snillingi. Einhver skoti sem sat þarna við flygilinn var ekki rónni fyrr en hann fékk að taka myndavélina hjá mér og fá mig til að setjast hjá pianistanum og fá mynd af okkur saman. Ég sá að það var ekkert annað í stöðunni en að verða við ósk þessara manns, því að hann lét ekki segjast.

Þegar að ég stilli mér upp svona baka til við pianistann, þá færir hann sig til á bekknum og bendir mér á að setjast hja sér. Ég geri það og skotinn tekur mynd af okkur. Pianistinn spyr mig hvaðan ég sé og ég segi honum það. Hann varð hugsi, og sagði upphátt : "Ísland, hmm... man ekki eftir neinu íslensku lag, er ekki til fullt af fallegum íslenskum lögum" Ég sagði það vera og þá bað hann mig um að raula eitt í eyrað á ser. Fyrsta sem kom upp í huga mér var Litla Flugan hans Sigfúsar Halldórssonar. Svo mín byrjaði að raula Litlu Fluguna í eyrað á pianaoleikaranum og viti menn, eftir smá stund var hann byrjaður að spila það. Hafði orð á því hvað þetta væri falleg melodia. Ég sagði honum að þetta væri eitt af mínum uppáhalds. Þá spurði hann mig hvort að það væri ekki texti við þetta og ég sagði svo vera en hann skildi ekki fá mig til að syngja fyrir sig. Hann hló og sagði mér að líta í kring um mig. Fullt af fullu fólki sem væri búin að gleyma þessu kvöldi á morgun. Ég sá að þetta var alveg rétt hjá honum og tók við mikrafóninum og söng. Það merkilega við þetta var að mér fannst það bara ekkert mál. Hann brosti og var hinn ánægðasti með mig.

Þegar að ég var búin með um það bil helminginn af laginu þá heyrist allt í einu kona arga hástöfum úr í horni: "Heyriðið þetta! Hann er að spila Litlu fluguna!" Þarna var sem sagt kominn hópur af íslenskum flugfreyjum hjá Arnarflugi. Ein alveg öskufull kom æðandi til okkar og reif af mér míkrafóninn og fór að syngja. Ég dó næstum því úr hlátri og læddi mér varlega í burtu. Lét hana bara alveg um þetta.

amsterdam_001.jpg

   amsterdam_002.jpg

 

 

 

 

 

 

Hér er ég að fara að syngja                   ...og svo hér er Arnaflugsflugfreyjan komin á flug!   

 

amsterdam_003.jpg

 

Hann skrifaði nafn sitt aftan á nafnspjald mitt, ef ég skildi koma til Tell Aviv. En þó ég ætti að bjarga lífi mínu þá get ég ekki skilið það sem stendur á spjaldinu.

 

 

 

 

Svo tek ég myndavélina mína hjá skotanum, sem hrósaði mér fyrir góðan söng. Sagði mig vera mun betri en þessi drukkna sem héldi á mikrafóninum núna... og hló þessi lifandi ósköp. Þakkaði honum fyrir og fór til hópsins míns. Þar var tekið á móti mér með virtum og spurð hvernig mér hefði dottið í huga að fara að syngja á pianobar. Ég sagði þetta vera hina hliðina á mér og ég fékk klapp og lof fyrir góða frammistöðu.

Þannig að... ég hef sungið á The Piano Bar í Amsterdam. Toppiði það!

Barflugan


Ég átti mér draum...

Ég hef aldrei skilið þetta. Ég þessi litla netta fallega álfadís, hef aldrei verið beðin um að vera brúaðarmeyja í brúðkaup. Þetta er eitthvað sem mér er bara alveg ómögulegt að skilja. Ég meina, ég er bara eins og klippt út úr ævintýrabók. Allar þessar Disney prinsessur og álfameyjar eru allar teiknaðar með mig sem fyrirmynd. Hafið þið ekki alveg örugglega tekið eftir því? Eða er þetta rangur misskilningur hjá mér? Er það kannski málið?

En hvað um það. Einu sinni náði ég næstum því að verða brúðarmeyja. Það var haustið 2004. Svana vinkona og Anton vinnufélagi minn voru búin að ákveða að ganga í hjónaband. Mér til mikillar gleði, enda hafði ég þurft að hafa mikið fyrir því að koma þeim saman, þessum elskum. Um leið og ég frétti af þessu, þá ákvað ég bara að nú skildi ég heimta að fá að vera brúðarmeyja. Láta þennan langþráða draum minn loksins rætast. Ég byrjaði pent að spyrja hvort að það yrðu örugglega ekki brúðarmeyjar. Svana horfði hissa á mig og sagðist ekki vera búin að ákveða það. Þá sagi ég henni að ég væri alveg til í að taka að mér það ábyrgðarmikla hlutverk. Það yrði mér sönn ánægja. Ég get ekki alveg lýst skelfingarsvipnum á henni Svönu minni, en ég hélt að hún væri hreinlega að fá taugaáfall. Ég byrjað að lýsa fyrir henni hvernig ég gæti verið klædd. Mætti auðvitað ekki skyggja á fegurð brúðarinnar. Svana var orðin náhvít í framan og ég var farin að halda að hún væri að verða eitthvað lasin. Svo þurfti að allt í einu að rjúka og við náðum ekkert að ræða þetta frekar.

Svo frétti ég það bara út í bæ að það var æfing hjá þeim í kirkjunni fyrir brúðkaupið. Bíddu... bíddu... og enginn haft orð á því við mig?!!!! Ég var nú ekki alveg að skilja þetta. Hvað var eiginlega í gangi?

Ég dreif mig í tjullið mitt. Setti upp sætu kórónuna mína, sótti sæta veldissprotan minn og allt... æfingin var byrjuð þegar að ég kom, svo að ég æddi bara inn í miðja æfingu og spurði hvað gengi eignlega á? Af hverju sagði mér enginn frá æfingunni? Það fóru allir að skellihlægja... nema brúðurin. Ég sá á Svönu að hún var upptjúnuð af stressi. Hún er svo nákvæm þessi elska og vill gera hluti svo vel að hún var alveg stjörf af stressi. Svo allt í einu tekur hún bakföll og sprakk úr hlátir. Gat ekki hætt að hlægja og tárin runnur niður kinnar hennar. 

Þar sem allir stóðu þarna hlægjandi (skil ekki af hverju) og æfingin alveg komin í einhverja vitleysu, sá ég að ég varð bara að taka í stjórntauminn. Gekk að prestinum, heilsaði honum og hneigði mig eins og sönn prinsessa og kynnti mig fyrir honum. Ég var sko brúðarmeyjan, með ákveðnum greini n.b. Hann heilsaði og kynnti sig sem Þórhall Heimisson og hann væri presturinn, líka með ákveðnum greini. Við vorum sko aðal Wink

Þar sem þetta var allt komið úr böndunum þá sagði ég að nú skildum við taka eina góða æfingu. Sýndi þeim síðan nokkur spor til að velja úr hvernig ég ætti að ganga inn gólfið. Þau voru ekki hrifin af valhoppi mínu, en kusu að ég tæki eitt skref í einu og stoppaði ögn á milli. Mér fannst það frekar óspennandi, en þau máttu ráða þessu. Svo gekk æfingin eins og í sögu. Presturinn benti mér á að sitja í tröppunum fyrir neðan altarið/kórinn og vera stillt. Bað mig nokkrum sinnum að sitja stillt. Fannst þetta frekar stjórnsamur prestur. Maður varð nú að finna flottustu pósuna þarna fyrir framan alla gestina Kissing

En þau stóðu sig eins og hetjur og ég auðvitað líka. Þarf svo sem ekki að taka það fram. 

bru_armeyjai.jpg    bru_armeyjaii.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En þau sögðu mér að þau vildu miklu frekar hafa mig sem veislustjóra í brúðkaupsveislu þeirra, en brúðarmeyja.

Ég hefði nú alveg getað verið bæði, en ég samþykkti það.

BrúðarMEYJAN


Meyjan

Meyja ég... mikið hefur mér verið oft strítt á meyjunni minni. Ég þarf eiginlega að fara að grafa upp stjörnukortið mitt. En það kemur fram að ég er meyja í frekar mögum tunglum, eða hvað það er kallað. Datt þetta í hug áðan þegar að ég var að vaska upp og var að "raða" hnífapörunum ofan í hnífaparaskúffuna. Þá var mér hugsað til tveggja vinkvenna minna. Þær pískruðu sín á milli og spurði mig síðan varnfærnislega hvað málið væri með hnífaparaskúffuna mína. Ég meina er eitthvað að þessu? Ég bara spyr...

 blogg_001.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég meina... raða ekki allir í hnífaparaskúffurnar sínar? Hmmm... líklega ekki. Jæja, ég skal viðurkenna að þetta er frekar skondð. En málið er bara það að það fer miklu minna fyrir draslinu þegar að hnífapörin "skeiða" Wink

Annað dæmi fyrir meyjuna mína. Ég átti nokkur handklæði sem voru ýmist hvít eða ljós drapp lituð. Það var aðeins farið að sjá á þeim. Búin að eiga þau í nokkur ár og auðvitað sér á svona ljósu. Hvað gerir meyjur við því? Jú, ég skal segja ykkur það! Litar þau öll með brúnum lit og þá verða þau öll eins á litinn. Snilld! Bara eitt orð yfir það... snilld!

011.jpg  013.jpg

 

 

 

 

 

 

Já og talandi um að raða í skúffur. Var að spá í að taka mynd af nærfataskúffunni minni og litaröðuðu bolunum mínum, en... ég hætti við það

Meyjan Kissing


Lítill kokkur

Eitt af því sem mér finnst ekki gaman að gera er að elda mat. Vantar alveg þennan neista að njóta þessa að matreiða. Þetta er allt gert af hreinni skyldurækni, engu öðru. Hef reyndar með árunum verið betri og betri, en áhuginn hefur ekki komið.

Fyrir nokkrum árum síðan þegar ég var einhleyp og mun reynslulausari í matseld en í dag, spurði góður vinur minn hvort að við ættum ekki að hittast við þriðja mann og elda saman góðan mat. Ég var alveg til í það, en bætti við að hann gerði sér vonandi grein fyrir því að ég væri lítill kokkur. Hann horfði á mig með púkasvip og sagði síðan hlægjandi að ég væri sko ekkert lítil.... hmm... manni getur nú sárnað þó að maður fari ekki að gráta.

Ég var ekki alveg tilbúin að gleyma þessari athugasemd. Ákvað að nú yrði ég að svara fyrir mig. Svo að ég mætti bara á tilsettum tíma...

 

...

 

 

 

...

 

 

 

...

 

 

 

...

 

 

 

 

sem lítill kokkur!

dscf1402.jpg


Alltaf gaman að hrekkja

Ég hef alltaf verið agalegur púki. Get ekki neitað því og margir orðið fyrir barðinu á stríðninni hjá mér.Síðast þá sett ég bláan matarlit út í mjólkina hjá vinnufélögunum 1. apríl og það voru margir sem gengu að vaskinum og helltu grænu kaffinu í vaskinn. Skil ekkert í fólki að vilja ekki grænt kaffi. En bláa mjólkin á auðvitað að vera blá. Ekki satt? Ótrúlega fyndið Devil

Einn hrekkur er alveg ótrúlega fyndinn. Ef þú þekkir einhvern sem kann ekki fingrasetninguna á lyklaborðinu og þarf alltaf að horfa á takkana. Þá er til einn skemmtilegur hrekkur. Pikkaðu upp nokkra takka og víxlaðu þeim. T.d. E og R, M og N, K og L, F og G... þetta er ég búin að gera nokkrum sinnum og í hvert einasta skipti verður viðkomandi alveg hoppandi pirraður á þessu "ónýta drasli". Svo er hægt að setja límband undir sumar tölvumýs, þá virka þær ekki.

En einn besti hrekkur sem ég hef gert, var algjör tilviljun. Það stóð ekkert til að hrekkja en ég bara gat ekki látið það vera. Ég var líklega 16 ára og var heima. Þurfti að tala við pabba sem var í vinnunni og hringdi í símann sem var á bókbandinu. Sími sem allir höfðu aðgang að og það var bara tilviljun hver svaraði í hann. Þarna voru ekki komnir neinir gsm símar, þar sem þú hringir bara beint í viðkomandi. Jæja, en ég þekkti þann sem svaraði og ákvað bara á sama augnabliki og ég heyri rödd hans að stríða honum. Breytti rödd minni í eins fullorðinslega rödd og ég gat og spurði eftir þessum sem hafði svarað símanum. "Jú, þetta er hann" svaraði hann. "Já, sæll" sagði ég. "Ég hringi frá Landspítalanum, getur þú nokkuð komið til okkar í smá rannsókn" Hann varð auðvitað mjög hissa, en ég var ekkert búin að ákveða neitt og var alveg á fullu að hugsa hvað ég ætti að segja við hann. "Jú, sjáður til" sagði ég. "Við viljum gjarnan fá að skoða aðeins betur í þér blóðið" Hann varð mjög hissa og vildi fá að vita eitthvað nánar. Ég fór alveg á flug og heilasellan mín var eins og ping pong kúla í hausnum á mér. "Heldur þú að þú getir skotist til okkar" spurði ég bara aftur. "Jú, ég get það sagði hann, en hvað er málið?" Ég veit ekki hvernig mér datt þetta í hug, en sagði "Það er engu líkara en að það sé að myndast mygla í blóðinu þínu" Hann varð auðvitað ekkert lítið hissa og sagðist ætla að koma eins og skot. Allt í einu fattaði ég að hann var að skella á. Ég gargaði í símann nafnið hans, rétt áður en hann lagði símtólið á. Hann tók upp aftur og það hafði ekki slitnað af því að ég hafði hringt, en ekki hann (svona virkar þetta á gömlu símana). "Já" sagði hann í spurnartóni þegar að hann tók upp símtólið aftur. "Þetta er Anna" sagði ég við hann. Hann spurði hissa hvaða Anna. "Anna Viðars" sagði ég. "Ha? Ert þú að vinna hja Landspítalanum?" Ég fór að skelli hlæja og sagði honum að ég hefði bara verið að fíflast í honum. Hann var smá stund og kveikja og hló síðan og játaði að ég hefði heldur betur náð að plata hann. Ég var svo hissa á að hann skildi gleypa við þessu bulli mínu og spurði hann hvort að hann hefði virkilega trúað þessu? Hvað haldið þið að hann hafi sagt. Alveg ótrúleg tilviljun.

En hann hafði verið í Blóðbankanum tveimur dögum áður að gefa blóð! LoL


Ferma eða ekki ferma

Það rifjast upp fyrir mér núna í þegar að fermingarundirbúningur er um allar jarðir, hvernig ég upplifði þetta á sínum tíma eða fyrir 34 árum síðan. Ég var mikið að spá í hver tilgangurinn væri eiginlega með þessari athöfn. Hvað er ég að játa? Hvað er ég að segjast ætla að gera? Er ég samkvæm sjálfri mér eða er ég að fylgja hópnum? Ég spurði mömmu hvort að ég ætti ekki bara að sleppa þessu. Þetta er eitthvað sem ég væri ekki alveg að trúa á og væri ekkert viss um að væri rétt af mér að ganga í gegnum. Mamma sagði mér að vera ekkert að velta mér allt of mikið upp úr þessu. Fylgja bara hópnum og ganga í gegnum ferminguna. Já, þetta var sennilega rétt hjá henni. Vera ekkert að draga mig úr hópnum.

En ég var samt ekki alveg sannfærð. Mætti í messur allan veturinn og hlustaði á Sr.Ólaf Skúlason tala yfir söfnuðinn. Það var einmitt það sem hann gerði, talaði yfir söfnuðinn en ekki til hans. Fannst þetta alltaf eitthvað ekki eins og sýndarmennska. Var aldrei sannfærð. En ég ákvað samt að fylgja hópnum og láta ferma mig.

Svo þegar að fermingardagurinn rann upp, þá var ég sennilega sú eina sem var ekki í öllu nýju og með hárið greitt af fagmanni. Var í skóm af Lilju systir, keypti flauels skokk sem ég gat notað áfram eftir ferminguna. Lilja systir hafði skellt nokkrum krullum í hárið á mér og ég var bara svo fín. En aðrir höfðu lagt miklu meiri pening í þetta og ljósmyndastofu og allt... úff... ég hafði ekki samvisku í að láta gamla settið splæsa svona miklu á eitthvað sem ég hafði ekki trú á. En ég var að þessu samt eiginlega bara þeirra vegna. Staðfesta skírnina sem þau höfðu látið mig fara í gegnum þrettán og hálfu ári áður.

En athöfnin gekk stórslysalaust fyrir sig. Það var reyndar næstum liðið yfir mig í kikjunni þar sem ég sat í sólargeislum miskunnarlausar vorsólarinnar. En svo færðist skuggi yfir mitt svæði og ég slapp við yfirlið. Þarna sat ég og hélt að ballið væri búið, en þá sagði Sr.Ólafur. Mig langar að biðja hana Önnu Viðarsdóttur að koma hérna upp og þiggja smá viðurkenningu fyrir frábæra ástundun í vetur. Ég horfði á prestinn í skelfingu og hugsaði með mér, bíddu hvað var maðurinn að segja? Á ég að mæta upp að altari til hans? Jú, það stemdi. Ég fer upp og hann gefur mér Biblíu fyrir góða ástundun. Mér fannst eins og ég þyrfti að afsaka mig og segja honum eins og er að ég var bara svona dugleg að mæta, af því að ég skildi ekki hvað hann væri að boða og væri enn að reyna að komast að því. En auðvitað þagði ég þæga unga stúlkan. Mér leið samt eins og Júdas.

En ekki nóg með það. Þegar að ég kem heim, þá sé ég að hann hefur áritað Biblíuna með nokkrum vænum orðum til mín. En þar sem ég var farin að vinna á bókbandi og farið að læra handtökin við að yfirfara bækur og leita að göllum. Jú, viti menn Biblína var með auðar blaðsíður. Ég hugsaði með mér, þó svo að ég ætlaði ekki að lesa Biblíuna að það væri skemmtilegra að eiga ógallað eintak.

Svo að það var farið með Biblíun til Sr.Ólafs og honum sagt frá því að Biblían væri gölluð. Hann hrópaði yfir sig: Blessað barnið! Þú hefur bara gripið í tómt þegar að þú varst að lesa Guðsorðið...

Ég er Júdas!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband