Ferma eða ekki ferma

Það rifjast upp fyrir mér núna í þegar að fermingarundirbúningur er um allar jarðir, hvernig ég upplifði þetta á sínum tíma eða fyrir 34 árum síðan. Ég var mikið að spá í hver tilgangurinn væri eiginlega með þessari athöfn. Hvað er ég að játa? Hvað er ég að segjast ætla að gera? Er ég samkvæm sjálfri mér eða er ég að fylgja hópnum? Ég spurði mömmu hvort að ég ætti ekki bara að sleppa þessu. Þetta er eitthvað sem ég væri ekki alveg að trúa á og væri ekkert viss um að væri rétt af mér að ganga í gegnum. Mamma sagði mér að vera ekkert að velta mér allt of mikið upp úr þessu. Fylgja bara hópnum og ganga í gegnum ferminguna. Já, þetta var sennilega rétt hjá henni. Vera ekkert að draga mig úr hópnum.

En ég var samt ekki alveg sannfærð. Mætti í messur allan veturinn og hlustaði á Sr.Ólaf Skúlason tala yfir söfnuðinn. Það var einmitt það sem hann gerði, talaði yfir söfnuðinn en ekki til hans. Fannst þetta alltaf eitthvað ekki eins og sýndarmennska. Var aldrei sannfærð. En ég ákvað samt að fylgja hópnum og láta ferma mig.

Svo þegar að fermingardagurinn rann upp, þá var ég sennilega sú eina sem var ekki í öllu nýju og með hárið greitt af fagmanni. Var í skóm af Lilju systir, keypti flauels skokk sem ég gat notað áfram eftir ferminguna. Lilja systir hafði skellt nokkrum krullum í hárið á mér og ég var bara svo fín. En aðrir höfðu lagt miklu meiri pening í þetta og ljósmyndastofu og allt... úff... ég hafði ekki samvisku í að láta gamla settið splæsa svona miklu á eitthvað sem ég hafði ekki trú á. En ég var að þessu samt eiginlega bara þeirra vegna. Staðfesta skírnina sem þau höfðu látið mig fara í gegnum þrettán og hálfu ári áður.

En athöfnin gekk stórslysalaust fyrir sig. Það var reyndar næstum liðið yfir mig í kikjunni þar sem ég sat í sólargeislum miskunnarlausar vorsólarinnar. En svo færðist skuggi yfir mitt svæði og ég slapp við yfirlið. Þarna sat ég og hélt að ballið væri búið, en þá sagði Sr.Ólafur. Mig langar að biðja hana Önnu Viðarsdóttur að koma hérna upp og þiggja smá viðurkenningu fyrir frábæra ástundun í vetur. Ég horfði á prestinn í skelfingu og hugsaði með mér, bíddu hvað var maðurinn að segja? Á ég að mæta upp að altari til hans? Jú, það stemdi. Ég fer upp og hann gefur mér Biblíu fyrir góða ástundun. Mér fannst eins og ég þyrfti að afsaka mig og segja honum eins og er að ég var bara svona dugleg að mæta, af því að ég skildi ekki hvað hann væri að boða og væri enn að reyna að komast að því. En auðvitað þagði ég þæga unga stúlkan. Mér leið samt eins og Júdas.

En ekki nóg með það. Þegar að ég kem heim, þá sé ég að hann hefur áritað Biblíuna með nokkrum vænum orðum til mín. En þar sem ég var farin að vinna á bókbandi og farið að læra handtökin við að yfirfara bækur og leita að göllum. Jú, viti menn Biblína var með auðar blaðsíður. Ég hugsaði með mér, þó svo að ég ætlaði ekki að lesa Biblíuna að það væri skemmtilegra að eiga ógallað eintak.

Svo að það var farið með Biblíun til Sr.Ólafs og honum sagt frá því að Biblían væri gölluð. Hann hrópaði yfir sig: Blessað barnið! Þú hefur bara gripið í tómt þegar að þú varst að lesa Guðsorðið...

Ég er Júdas!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Áslaug Kristinsdóttir

Þú ert alveg ótrúlega fyndin!

Áslaug Kristinsdóttir, 6.4.2011 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband