Kosningardagur

Framundan er kosning um þetta blessaða Icesave. Ætla nú ekki að fara að tjá mitt neitt um það hér, þar sem ég hef ekkert vit á þessu. Hvað er svo sem að marka það sem maður heyrir hjá þessum blessuðu sérfræðingum. Það er auðvelt að koma með rök með eða á móti og rugla mann allveg í rímínu.

En það rifjaðist upp fyrir mér þegar að það var verið að tala um kosningar, þegar að ég fór að kjósa á Stjórnlagaþingið. Ég hef nú sjaldan verið talin pen og dömuleg, en Guð minn góður hvað ég gerði mig að miklu fífli þegar að ég fór að kjósa. Ég var næstum því búin að rústa kennslustofunni sem ég mætti í til að kjósa. Það voru þessi blessuðu bylgjuplastskilrúm sem mörkuðu af básana fyrir kjósendur.

Ég kem þarna inn og byrja á því að reka töskuna mína í kjörkassann sem var á borði við dyrnar. Hann fór á flug og við gipum hann í sameiningu ég og konan sem stóð vörð í dyrunum. Það hrökk upp úr mér þegar að ég var með aðstoð konunnar að koma kassanum aftur fyrir á boðinu að það var eins gott að vörðurinn var á verði. Hún hló bara góðlátlega að mér, en ég fann samt að hún hafi augun á mér. Eins gott að fylgjast með henni þessari.

Svo sýni ég skilríki og fæ kjörseðilinn minn. Þarna voru sennilega hátt í 20 básar í einni kennslustofu og ég bara ein á ferð. Hafði þarna alla stofuna fyrir mig. Geng að fremsta básnum við gluggaröðina og ætlaði að setjast voða pent niður. Nei, nei, þurfti mín ekki að reka hægri ermina á úlpunni minni í skilrúmið og allt á fleygi ferð. Ég hljóðaði upp og greip í skilrúmið áður en það fór á flug. Brosti eins og hálviti til fólksins og sagði bara "úbs"!

Jæja, Anna sittu nú pen og reyndu að koma þessu stórslysalaust frá þér. Ég merki við þau sem ég var búin að ákveða að kjósa. Set minnismiðann minn skammlaust í töskuna mína og stend upp. Í helv... bægslaganginum hjá gríp ég töskuna mína með vinstri hendinni og sveifla henni svo af fullu afli í skilrúmið hægra meginn við borðið mitt þegar að ég var að fara frá básnum. Bregður svo mikið við þetta að ég hljóða upp, hendist til að grípa skilrúmið og sparka í stólinn minn í leiðinni. Ég hefði getað sokkið ofan í jörðina þarna á þessu augnabliki. Mikið rosalega skammaðist ég mín svakalega. Fannst ég vera fíll í krystalsbúð. Tók töskuna í fangið, gekk ákveðjum skrefum að kjörkassanum. Stoppaði áður en ég færi að gera eitthvað að mér. Ætlaði aldrei að koma helv... seðlinum í kassann. Dró andann djúpt og gekk knarreist út og baðst afsökunar á þessum brussugangi í mér.

Ég heyri ennþá hláturrokurnar sem glumdu í skólastofunni þegar að ég gekk út ganginn í átt að frelsinu. Ég held að ég leggi ekki í að kjósa um Icesave.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband